Raunir móta manneskjuna
Fyrirlestrar og vinnustofur
Ég býð upp á fyrirlestra og vinnustofur fyrir fagfólk sem starfar með börnum. Námskeiðin eru fyrst og fremst ætluð starfsfólki í grunnskólum, en hægt er að aðlaga þau að þörfum annarra hópa, svo sem starfsfólks í félagsmiðstöðvum og íþróttaþjálfara. Fræðslan miðar að því að efla faglega færni og veita hagnýta þekkingu sem nýtist í daglegu starfi með börnum. Í boði eru nokkur ólík efni sem fjalla um algengar áskoranir í skóla- og frístundastarfi. Hvert þeirra er í boði bæði sem 90 mínútna fyrirlestur og sem 3–4 klukkustunda vinnustofa. Almennar fyrirspurnir og bókanir fara fram í gegnum netfangið raunir@raunir.is. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þau efni sem í boði eru.
Gagnreyndar leiðir til agastjórnunar – Að grípa góða hegðun, hvatningarleikurinn og hegðunarsamningar
Hegðunarvandi er áskorun sem mörg börn glíma við og getur hamlað þeim í námi og þroska. Þetta er vandi sem allt starfsfólk grunnskóla þekkir. Rannsóknir sýna að skýrleiki, fyrirsjáanleiki og samræmi í viðbrögðum starfsfólks eru meðal helstu áhrifaþátta þegar kemur að því að viðhalda og byggja upp aga í skólum. Í þessum fyrirlestri fær starfsfólk fræðslu um gagnreyndar aðferðir til agastjórnunar, svo sem um notkun hegðunarsamninga, hvatningarleiksins, skýrra fyrirmæla og jákvæðrar styrkingar. Markmiðið er að kenna starfsfólki að skapa fyrirsjáanlegt, jákvætt og uppbyggilegt umhverfi fyrir bæði nemendur og starfsfólk.
Við lok námskeiðs býr starfsfólk yfir þekkingu á:
• Einföldum verkfærum til agastjórnunar sem hægt er að beita strax.
• Hvatningarleiknum og hvernig hann er notaður til að bæta námsástundun.
• Notkun hegðunarsamninga sem lausnamiðað verkfæri í skólastarfi.
Samskipti við forráðamenn – Samvinna, mörk og lausnaleit
Jákvæð samskipti milli heimilis og skóla eru lykilatriði í árangursríku skólastarfi. Samskipti geta hins vegar verið krefjandi, sérstaklega þegar viðkvæm mál eru rædd eða skoðanamunur ríkir. Í mörgum tilvikum eiga einu samskipti heimila og skóla sér stað í tengslum við neikvæða atburði. Til dæmis þegar barn fær áminningu eða neikvæða endurgjöf á hegðun sína. Starf þeirra sem vinna í grunnskólum er bæði fjölbreytt og krefjandi og því getur verið áskorun að finna rými og tíma til að sinna markvissum og uppbyggilegum samskiptum við heimilin þó svo að vilji sé fyrir hendi. Með markvissri nálgun og ígrundun getur starfsfólk skóla eflt samskiptafærni sína, komið í veg fyrir óþarfa ágreining og leyst sjálf úr þeim vanda sem upp kemur. Með því er hægt að byggja upp traust sem eykur líkur á samvinnu og farsælli lausn fyrir velferð nemenda.
Við lok námskeiðs býr starfsfólk yfir þekkingu á:
• Hugtökunum samskipti og samskiptavandi.
• Leiðum til að nálgast viðkvæm samtöl af yfirvegun og virðingu.
• Aðferðum til að efla samvinnu við foreldra og setja mörk í erfiðum aðstæðum.
*Þessum fyrirlestri fylgir skráningarskjal sem auðveldar starfsfólki skóla að eiga markviss, jákvæð samskipti við foreldra.
Börn foreldra með fíknivanda – Hvernig getur skólinn skapað öryggi og stöðugleika?
Rannsóknir sýna að um fjórða hvert barn á náinn aðstandanda með fíknivanda. Börn í slíkum aðstæðum búa við aukna hættu á ofbeldi, vanrækslu, vanlíðan, einangrun, námsörðugleikum og ýmsu öðru. Skólasamfélagið gegnir lykilhlutverki í að veita þessum börnum öryggi, stöðugleika og stuðning. Fræðslan miðar að því að auka þekkingu starfsfólks á fíknsjúkdómnum, áhrifum hans á börn og hvernig hægt er að bregðast við til að styðja við börn í þessari stöðu.
Við lok námskeiðs býr starfsfólk yfir þekkingu á:
• Áhrifum vímuefnanotkunar foreldra á líðan og hegðun barna.
• Hlutverki skólasamfélagsins í því að veita stuðning og stöðugleika.
• Leiðum til að skapa öryggi og traust í samskiptum við börn í viðkvæmri stöðu.
Kvíði barna - Hvernig get ég stutt við barn með hamlandi kvíða?
Kvíði er algengur meðal barna og unglinga og getur haft veruleg áhrif á námsframvindu, líðan og félagslega þátttöku. Starfsfólk skóla er oft fyrstu fagaðilar sem verða varir við kvíðaeinkenni hjá börnum en skortir stundum þekkingu eða verkfæri til að bregðast við. Með því að auka skilning og færni starfsfólks skóla er hægt að bregðast fyrr við, efla virkni og stuðla að vellíðan nemenda.
Við lok fyrirlestrar býr starfsfólk yfir þekkingu á:
• Hugtakinu kvíði og muninum á eðlilegum og hamlandi kvíða.
• Helstu birtingarmyndum kvíða hjá börnum.
• Hagnýtum aðferðum til að styðja við börn með kvíða í skólastarfi og eiga í samskiptum við foreldra.
Um Raunir
Mynd: Magnús Óli Sigurðsson
Raunir
Raunir er sjálfstætt starfandi sálfræðiþjónusta sem býður upp á fræðslu og faglega ráðgjöf fyrir þau sem starfa með börnum. Í upphafi felst starfsemin einkum í fyrirlestrum og vinnustofum um andlega líðan, samskipti og stuðning við börn.
Um mig
Ég heiti Guðmundur Kári Þorgrímsson og er stofnandi og eigandi Rauna. Ég er klínískur sálfræðingur með leyfi frá landlækni til að starfa sem slíkur. Hægt er að fletta mér upp í starfsleyfaskrá Landlæknis (smelltu hér). Jafnframt hefur Embætti Landslæknis verið tilkynnt um rekstur Rauna. Upplýsingar um sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk má finna í Rekstraraðilaskrá á vefkerfi Embættis Landlæknis (smelltu hér).
Mín áhugamál eru tungumál, bókmenntir, útivist, hlaup og aðrar íþróttir. Minn áhugi innan sálfræðinnar er velferð barna og forvarnir í starfi með börnum. Þá sérstaklega liggur áhugi minn í almennri lýðheilsu.
Menntun
Ég lauk grunnskóla vorið 2015 og stúdentsprófi frá leiklistarbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ vorið 2018. Eftir tvö ár frá námi skráði ég mig í sálfræði við Háskólann á Akureyri haustið 2020 og lauk B.A. gráðu í júní 2023. Þaðan lá leið mín til Háskólans í Reykjavík hvar ég nam klíníska sálfræði til M.Sc. prófs og útskrifaðist sumarið 2025. Nú legg ég stund á nám í farsæld barna til Diploma-gráðu við Háskóla Íslands og kem til með að klára hana á vormánuðum 2026.
Ferilskrá
Auðarskóli, Dalabyggð: September 2025 -
Frá og með hausti 2025 starfa ég sem deildarstjóri grunnskóladeildar Auðarskóla sem er samrekinn leik-, tón og grunnskóli í Dalabyggð. Í starfinu felst fagleg og skipulagsleg forysta í grunnskólastarfi. Meðal annars þróun skólanámskrár, stuðningur við kennara og teymisvinna með skólastjórn, foreldrum og fagaðilum. Ég ber jafnframt ábyrgð á skipulagi kennslu, endurgjafar og skólasóknar, stuðningi við nemendur og þátttöku í stefnumótun og umbótastarfi innan skólans.
Frá 22. september 2025 - 1. janúar 2026 gegndi ég hlutverki starfandi skólastjóra Auðarskóla.
Keðjan, Reykjavíkurborg: Apríl 2025 – september 2025
Uppeldisráðgjöf og stuðningur fyrir foreldra í uppeldismálum með áherslu á jákvæð samskipti, bjargráð og lausnamiðaða nálgun með gagnreyndum aðferðum. Starfið felur í sér einstaklingsviðtöl, fræðslu og samstarf við fjölskyldur inni á heimili þeirra og samstarf við aðra fagaðila innan þjónustukerfisins.
Fimleikaþjálfari hjá ýmsum félögum: September 2015 - Nóvember 2025
Ég hef unnið sem fimleikaþjálfari hjá ýmsum félögum; Fimleikadeild KA (áður FIMAK); Fimleikadeild Stjörnunnar; og Fimleikadeild Selfoss. Nú síðast var ég meistaraflokksþjálfari hjá Stjörnunni og þjálfaði þar karlaliðið í gólfæfingum.
Starfsnám í barnaþjónustu SÁÁ: Janúar 2025 – maí 2025
Ég var sálfræðinemi hjá barnaþjónustu SÁÁ. Úrræðið þjónustar börn sem eiga nána aðstandendur sem glíma við fíknivanda. Þar er veitt sálfræðimeðferð byggð á HAM sem fræðir börn um fíknsjúkdóminn og miðar að því að efla bjargráð þeirra.
Starfsnám í nemendaþjónustu HR: Ágúst 2024 – desember 2024
Ég var sálfræðinemi hjá nemendaþjónustu HR. Þar var ég með skjólstæðinga í HAM meðferð við þunglyndi, lágu sjálfsmati og einkennum áfallastreitu.
Starfsnám í Vesturmiðstöð Reykjavíkurborgar: Janúar 2024 – mars 2024
Ég var sálfræðinemi hjá Vesturmiðstöð Reykjavíkurborgar. Þar flutti ég 6 vikna námskeið í foreldramiðaðri hugrænni atferlismeðferð fyrir foreldra kvíðinna barna.
Keðjan, Reykjavíkurborg: Júní 2023 – janúar 2024
Ráðgjafi hjá Keðjunni. Verkefnastjóri hjá stöku máli þar sem víðtækur stuðningur var á heimili. Var með mannaforráð og þau verk sem því fylgja (ráðningar, vaktaskipan og verklag). Starfaði einnig við hópastarf fyrir ungmenni.
Hjúkrunarheimilið Fellsendi: Október 2022 – maí 2023
Almenn umönnun á geðhjúkrunarheimili. Þar vann ég með sjúkraliðum, geðhjúkrunarfræðingum og læknum.
Auðarskóli, Dalabyggð: Ágúst 2022 – ágúst 2023
Leiðbeinandi með umsjón í grunnskóla á elsta stigi. Almenn kennsla, foreldrasamskipti, úrlausn ýmissa mála, umsjón með öryggi nemenda, stamstarf með öðrum kennurum, sálfræðingum, sérkennurum, hjúkrunarfræðingum o.fl. fagaðilum innan skólakerfisins.
Fimleikasamband Íslands: Janúar 2020 – janúar 2021
Verkefnastjóri hjá FSÍ. Umsjón með hæfileikamótun drengja með það að markmiði að efla iðkun drengja í hópfimleikum. Taka viðtöl, markaðssetning, myndbandsgerðir, umsjá samfélagsmiðla, skipulagning sýningarferðar hringinn í kringum landið og gerð heimildarmyndarinnar Fimleikahringurinn 2020 sem sýnd var á RÚV.
Hinseginfræðsla hjá Akureyrarbæ: Nóvember 2016 – maí 2022
Ég fræddi 9. bekk í öllum grunnskólum Akureyrar um almenn hinsegin málefni og sagði einnig sögu mína af því að koma út úr skápnum. Ég gegndi þessu starfi frá 2016 til 2022 og fræddi samtals átta árganga. Auk þess að vera hjá Akureyrarbæ fór ég í sjálfstætt verkefni veturinn 2019-2020 til að bæta hinsegin fræðslu á landsbyggðinni. Ég fór í 26 grunnskóla um landið með fræðslu fyrir nemendur, kennara og foreldra.
Hafðu samband
Ef þú hefur spurningar um þjónustu Rauna eða vilt bóka fyrirlestra er þér velkomið að hafa samband.